Vottun á ábyrgum fiskveiðum

Vottun ábyrgra fiskveiða undir merkjum Iceland Responsible Fisheries (IRF) felur í sér faglega og óháða vottun þriðja aðila á fiskveiðum Íslendinga. Tilgangur vottunar er að sýna fram á með gagnsæjum hætti að staðið er að fiskveiðum og fiskveiðistjórnun á Íslandi á ábyrgan og viðurkenndan hátt í samræmi við kröfur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO.

Hvað staðfestir vottun á fiskveiðum?

Alþjóðasamfélagið  hefur skilgreint hvað felst í góðri stjórn fiskveiða á vettvangi FAO. Siðareglur og leiðbeiningar um umhverfismerkingar matvæla innihalda þau viðmið sem vottað er eftir. Skilyrði fyrir því að fiskistofn geti hlotið vottun er:

  • Fyrir hendi er formlegt og skipulagt fiskveiðistjórnunarkerfi og áætlanir um nýtingu stofnsins
  • Fiskistofnar skulu ekki vera ofveiddir og það skal staðfest með vísindalegum rannsóknum og metið af óháðum erlendum sérfræðingum
  • Fyrir hendi skal vera virkt eftirlit og stjórnkerfi til að stjórna veiðum og skrá afla
  • Áhrif veiða á vistkerfið eru takmörkuð með skilgreindri aðferðafræði

Vottunin staðfestir því ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni um auðlindir sjávar.

Vottun byggð á viðmiðum FAO

Vottunarferlið er unnið samkvæmt viðurkenndum stöðlum og eru kröfulýsingar unnar samkvæmt leiðbeiningum FAO um umhverfismerkingar og vottun vegna veiða úr villtum stofnum. Vottunaraðilinn er óháð vottunarstofa sem hlotið hefur faggildingu samkvæmt ISO staðli til að sinna vottun af þessu tagi.

Viðurkenning af hálfu GSSI

Vottunarverkefni Ábyrgra fiskveiða ses. (ÁF) hefur hlotið viðurkenningu af hálfu Global Sustainable Seafood Initiative (GSSI). Vottunarverkefnið hefur staðist allar lykilkröfur sem settar eru fram í úttekt GSSI á starfsemi og fiskveiðistaðli ÁF en kröfur GSSI byggja fyrst og fremst á samþykktum FAO. Viðurkenning af hálfu GSSI staðfestir að íslensk vottun undir merkjum Iceland Responsible Fisheries stenst mat byggt á alþjóðlegum kröfum um fiskveiðistaðla og verklag.

GSSI er alþjóðlegur samvinnuvettvangur verslanakeðja, félagasamtaka, sérfræðinga og opinberra og alþjóðlegra stofnana. Markmiðið með starfsemi GSSI er að auka gagnsæi vottunar og auðvelda samanburð og efla þannig traust og stuðla að upplýstu vali í viðskiptum með vottaðar sjávarafurðir. Fyrirtæki sem eru félagar í GSSI hafa skuldbundið sig til að viðurkenna öll þau vottunarverkefni sem standast GSSI úttekt, þegar kemur að innkaupum á sjávarafurðum. Meðal þeirra eru verslunarkeðjur og fyrirtæki eins og Ahold Delhaize, Morrisons, Metro Group, High Liner Foods og Trident. 

Vottun á þorskveiðum

Vottun á þorskveiðum var fyrst staðfest í desember árið 2010 og árið 2015 voru þorskveiðarnar endurvottaðar. Vottunin er mikilvæg fyrir íslenskan sjávarútveg og staðfestir að veiðarnar samræmast alþjóðlegum kröfum um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. Vottunin staðfestir einnig að þorskveiðarnar, líkt og aðrar IRF vottaðar veiðar, uppfylla varúðarleið við stjórn fiskveiða en veiðunum er stjórnað skv. aflareglu (harvest control rule). Aflaregluna hafa stjórnvöld ákveðið í samræmi við tillögu Hafrannsóknarstofnunar og hefur Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) yfirfarið hana og samþykkt.

Markmiðið er að gera íslenskan sjávarútveg þekktan fyrir ábyrgar veiðar og er verkefninu „Iceland Responsible Fisheries“ ætlað að efla bæði innra starf í greininni og kynningu á erlendum vettvangi. Þessi vottun og úttekt sem gerð var af Global Trust/SAI Global, nær til veiða undir stjórn íslenskra yfirvalda í íslenskri landhelgi með öllum veiðarfærum.

Þau fyrirtæki sem falla undir þessa vottun eru skráð í gagnagrunn hjá Global Trust, auk þess sem nöfn þeirra eru birt á enska hluta vefsins. Jafnframt mynda þessi fyrirtæki þann hóp sem Global Trust getur heimsótt í því skyni að gera reglulegar úttektir til að viðhalda vottuninni á veiðunum.

Nánari upplýsingar um vottun á þorskveiðum er hægt að nálgast á enska hluta vefsins.

Vottun á ýsu- og ufsaveiðum

Ýsu- og ufsaveiðar í íslenskri landhelgi hlutu fyrst vottun í október 2013 og voru síðan endurvottaðar í janúar 2015. Nánari upplýsingar um vottunina og vottunarskýrslurnar eru aðgengilegar á enska hluta vefsins, hér um ýsuna og hér um ufsann

Vottun á gullkarfaveiðum

Þann 1. maí 2014 hlutu gullkarfaveiðar vottun. Vottunin er mikilvæg krafa á helstu markaðssvæðum Íslendinga fyrir gullkarfann, einkum í Þýskalandi. Sjá nánar í fréttatilkynningu. Á enska hluta vefsins er að finna ítarlegri upplýsingar um vottun á gullkarfaveiðum á Íslandsmiðum.